Nú eru aðeins tvær vikur þar til hátíðin hefst og er undirbúningur í hámarki. Við höfum gert samning við 66°norður og munu þeir gefa verðlaun í allar greinar hátíðarinnar en einnig munu þeir vera með “pop up” verslun samhliða skráningu og afhendingu gagna. Craftsport sem hefur verið einn af okkar dyggustu styrktaraðilum er að hætta starfsemi og því ákváðum við að leita á ný mið og fögnum við þessu samstarfi við 66°norður um leið og við þökkum Craftsport, Bobba, fyrir samstarfið.

Þegar skráningu á hlaupahatid.is lýkur, á hádegi miðvikudaginn 17. júlí, verður hægt að skrá sig og sækja gögn að Austurvegi 2 en það er sama húsnæði og við höfum verið áður nema annar inngangur. Á sama stað verður 66°norður með verslun þar sem verður hægt að gera góð kaup. Nákvæm tímasetning er ekki komin á hreint en við stefnum á að byrja eftir hádegið fimmtudaginn 18. júlí og verðum svo allan föstudaginn líkt og áður hefur verið. Á laugardag og sunnudag verðum við svo á Þingeyri með skráninguna og afhendingu gagna.