Verið er að uppfæra upplýsingar fyrir árið 2018

Vesturgötuhjólreiðar eða Svalvogahjólreiðar eru keppnisgrein á Hlaupahátíðinni í níunda sinn. Hjólað verður laugardaginn 14. júlí og er startað klukkan 10 frá íþróttahúsinu á Þingeyri. Keppt er í karla og kvennaflokki, einni vegalengd. Í ár verður einnig keppt í aldursflokkum og verða þeir 16-39 ára og 40 ára og eldri. Vegleg verðlaun verða veitt fyrstu þremur í karla og kvennaflokki, óháð aldursflokkum

Vesturgötuhjólreiðarnar verða einnig Íslandsmeistaramót í maraþonfjallahjólreiðum og eigum við von á sterkustu hjólurum landsins til keppni

Skráning er hafin á hlaupahatid.is en eftir að forskráningu lýkur er hægt að nálgast gögn og skrá sig í versluninni CraftSport við Austurveg 2 á Ísafirði fimmtudaginn 13. júlí frá 16-18 og föstudaginn 14. júlí frá 12-18. Þeir sem ekki geta sótt gögnin sín þar geta nálgast þau við startið á Þingeyri frá klukkan 9 á keppnisdaginn. Notast er við flögur í tímatökunni og eiga keppendur að festa þær á hjólið en leiðbeiningar fylgja með gögnunum. Einnig verður númer sem keppendur festa á hjólið sitt.

Drykkjarstöðvar verða á leiðinni en keppendur fá einnig hressingu að keppni lokinni, orkudrykk frá Enervit, vatn, vöfflur og fínerí.

Stutt leiðarlýsing

Bæði rásmark og endamark eru við sundlaugina á Þingeyri og verða alls hjólaðir 55km. Leiðinni má stuttlega lýsa svo: Hjólað er frá Þingeyri að flugvellinum í Dýrafirði og síðan inn Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði í 544 m hæð áður en haldið er eftir langri, grófri en nokkuð beinni brekku niður Fossdal að sjó í Arnarfirði. Athugið að framarlega í Fossdal, skömmu áður en komið er niður að sjó, eru vegamót. Þar eiga keppendur að beygjatil hægri, út fjörðinn. Frá Fossdal liggur leiðin yfir í Stapadal og síðan eftir ýtuvegi Elísar Kjarans út í Lokinhamradal, áfram fyrir Sléttanes að Svalvogavita, eftir syllunni í Hrafnhólunum inn í Keldudal og þaðan áfram inn Dýrafjörðinn að Þingeyri aftur og í mark við sundlaugina. Athugið að undirlagið er gróft og því nauðsynlegt að vera á góðum dekkjum.

 

Myndefni