Skráning er hafin á hlaupahatid.is og stendur hún yfir til miðnættis mánudaginn 12. júlí og athugið að engin skráning er eftir þann tíma. Þeir sem ekki geta nálgast gögnin á Ísafirði fimmtudag og föstudag geta gert það á laugardag og sunnudag í tjaldi fyrir utan íþróttahúsið á Þingeyri frá klukkan 9.00 á laugardeginum og klukkan 7.30 á sunnudeginum. Keppendur eru beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum varðandi mætingu, rútuferðir og annað hér á vefnum en nánari upplýsingar birtast þegar nær dregur.

Í Vesturgötunni verður notast við flögutímatöku og þeir sem taka einnig þátt í öðrum greinum hátíðarinnar nota sömu flöguna allan tímann. Mjög mikilvægt er að keppendur passi vel upp á flöguna sína því ef hún er ekki til staðar þá fær viðkomandi ekki tímann sinn skráðann.
Vesturgatan er frekar hæðótt hlaup og er keppendum bent á að fara varlega þar sem vegir geta verið mislægir og frekar grófir og hefur sumum fundist betra að hlaupa í utanvegaskóm þó svo að venjulegir hlaupaskór dugi alveg. Mælum ekki með keppnisskóm.
Einhverjir lækir eru á leiðinni en engar ár að vaða.
Í 45 km hlaupinu er hlaupið frá Þingeyri , upp Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði og niður Fossdal. Hlaupið er svo eftir vegi þar til komið er að vegamótum og er þá beygt til hægri  út fjörðinn. Þar er fljótlega komið í Stapadal þar sem startið í 24 km er.
Rútur ferja fólk í startið í 24 og 10 km og geta keppendur sett aukafötin í rútuna sem bíða þeirra í markinu. Æskilegt er að hafa fötin í töskum. Ekkert klósett er í startinu en móinn hefur reynst keppendum vel undanfarin ár.

Athugið að rásmark er ólíkt eftir hverju hlaupi fyrir sig. Endamark er hins vegar á Sveinseyri í öllum hlaupunum. Þar bíða keppenda bæði drykkir og léttar veitingar. Rútur selflytja keppendur eftir þörfum inn á Þingeyri.

45 km

 • 7:30   Afhending keppnisgagna fyrir þá sem það eiga eftir.  Einnig hægt að skilja auka föt eftir  (í töskum) og verður þeim komið í markið á Sveinseyri.
 • 8:00:  Ræst frá Íþróttahúsinu á Þingeyri
 • Nokkrar drykkjarstöðvar eru í hlaupinu en keppendum er bent á að hafa til taks drykki/orku. Í boði verður vatn og Isotonic orka frá Bætiefnabúllunni
 • Athugið að keppendur eiga að koma með sitt eigið glas
 • Skyldubúnaður er álteppi, flauta og jakki (í bakpoka), orka sem samsvarar 500 kcal og ef veðurspá er slæm þá fá keppendur tölvupóst um meiri skyldubúnað t.d. buff, vettlinga, síðar buxur/kálfahlífar/háir sokkar
 • Þeir sem eru búnir að ná í gögnin sín geta mætt seinna en gott er að vera komin á staðinn ca 10-15 mín fyrr
 • Heildarhækkun í hlaupinu er um 1000m

24 km

 • 8:15:   Afhending keppnisgagna fyrir þá sem það eiga eftir.
 • 9:00:  Brottför með rútum að rásmarki við Stapadal í Arnarfirði.
 • 11:00:  Hlaupið ræst.
 • 4 drykkjarstöðvar eru í hlaupinu, við ca 6,12, 18 og 22  km. Boðið upp á vatn ogIsotonic orku frá Bætiefnabúllunni.
 • Athugið að keppendur eiga að koma með sitt eigið glas
 • Þeir sem eru búnir að ná í gögnin sín áður geta mætt 10-15 mín fyrir brottför rútunnar
 • Heildarhækkun í hlaupinu er um 400m

10 km

 • 10:45 :  Afhending keppnisgagna fyrir þá sem það eiga eftir.
 • 11:15:   Brottför með rútu að rásmarki rétt við Svalvogavita.
 • 12:45: Hlaupið ræst.
 • 2 drykkjarstöðvar eru í hlaupinu, eftir ca 5 km og 8 og verður boðið upp á vatn og Isotonic orku frá Bætiefnabúllunni.
 • Athugið að keppendur egia að koma með sitt eigið glas
 • Þeir sem hafa sótt gögnin sín geta mætt seinna á staðinn en ágætt er að miða við að vera mætt 10-15 mín fyrir brottför
 • Heildarhækkun í hlaupinu er um 200m

Á drykkjarstöðvum verður bæði boðið upp á vatn og orkudrykki. Einnig skal bent á hinar fjölmörgu náttúrulegu drykkjarstöðvar á leiðinni í boði vestfirskra fjalla. Engin glös verða á drykkjarstöðvum og því verða keppendur að vera með sitt eigið glas.  Í endamarki bíða keppenda létt hressing og drykkir.  Þar verður einnig tjald þar sem leita má skjóls ef einhver rigning berst að sunnan. Keppendur verða selfluttir frá endamarki inn að Sundlaug Þingeyrar.

Eins og sjá má er 10 km hlaupið ræst tæpum 2 klst seinna en 24 km hlaupið því við þurfum að nota sömu rútur og í fyrri vegalengdinni. Fastlega má reikna með því að hóparnir blandist eitthvað saman, þótt þeir fótfráustu úr lengri vegalengdinni verði komnir framhjá Svalvogavita áður en ræst verður í styttri vegalengdina.

Ef eitthvað bjátar á mun fulltrúi heimamanna reka lestina á bíl, til öryggis fyrir okkur hlauparana. Að vanda skal þó tekið fram að keppendur eru á eigin ábyrgð í hlaupinu.

Vinsamlegast athugið að umferð kann að vera á veginum á keppnisdegi. Við viljum ekki láta stöðva neina umferð enda hefur hún ekki valdið neinum vandkvæðum fram að þessu; fæstir vegfarendur á þessari leið eru að flýta sér nema við. Sérfræðingur í mannlegu atferli hefur tjáð okkur að uppréttur lófi sé líklegur til að fá ökumenn til að stöðva ef og þegar það hentar ykkur.