Tveir dagar í hátíðina

Þá eru aðeins nokkrar klst eftir af forskráningunni og hefur skráningin aldrei verið eins mikil og í ár. Við sem að hátíðinni stöndum erum mjög ánægð með þessa þróun og það sýnir okkur að við erum að gera eitthvað rétt. Öll vinnan við undirbúning hlaupahátíðarinnar er unnin í sjálfboðavinnu sjö einstaklinga en þess utan greiðum við íþróttafélögum fyrir gæslu, drykkjarstöðvar og annað tilfallandi. Ekki má gleyma björgunarsveitunum hér í kring en án þeirra gætum við lítið gert því þær aðstoða okkur mikið í hjólreiðunum og Vesturgötuhlaupinu. Takk fyrir ykkar framlag.

Það er alveg sama hvert við leitum, allsstaðar er okkur vel tekið. Fyrirtæki á svæðinu styrkja okkur mjög vel, bæði með peningastyrkjum og einnig með gjöfum sem við notum ma í útdráttarverðlaun. Mjög dýrmætt og skiptir okkur miklu máli.

Verðlaunin á hátíðinni eru nánast öll vestfirk eða frá vestfirskum fyrirtækjum. Það eru ma lopapeysur, vettlingar, súkkulaði, harðfiskur, salt, bækur, dropar, laktósafríar mjólkurvörur, fatnaður, gisting, kayakferðir, bátsferðir, kvöldverður og margt fleira. Það er okkur mikilvægt að gestir okkar kynnist vestfirskri framleiðslu og því sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða.

Við hlökkum til að sjá ykkur um helgina og vonum að þið eigið eftir að eiga góða helgi hér hjá okkur, góða skemmtun